Hárlos eftir meðgöngu

Hárlos eftir meðgöngu

Hárlos eftir meðgöngu - orsakir og úrræði

Meðganga er fallegt ferðalag sem umbreytir lífi einstaklings á margan hátt. Samt sem áður, ásamt gleðinni við að koma nýju lífi í heiminn, getur það einnig valdið óvæntum breytingum á líkamanum, þar á meðal hárlosi eftir fæðingu. Þetta fyrirbæri, oft nefnt hárlos eftir fæðingu, getur verið þreytandi og kvíðavaldandi fyrir nýjar mæður. Í þessari grein munum við fara yfir orsakir hármissis eftir meðgöngu og benda á nokkur úrræði til að draga úr áhrifum þess.

Hvers vegna er meira hárlos eftir meðgöngu?

Hárlos eftir meðgöngu er algengt ástand sem kemur oftast fram nokkrum mánuðum eftir fæðingu. Á meðgöngu lengir aukið magn estrógens hárvaxtartímabil hvers hárs, sem leiðir til þykkara og fyllra hárs – á meðan þú ert ófrísk. Hins vegar, eftir fæðingu, lækkar estrógenmagnið verulega, sem veldur því að meira hár fer í hvíldarfasa og að honum loknum losnar það og fellur. Þessi tími, sem er venjulega um það bil þremur til sex mánuðum eftir fæðingu, getur verið skelfilegur fyrir margar konur.

Orsakir hárlos eftir fæðingu

Það geta verið ýmsar ástæður auk þeirra miklu hormónabreytinga sem eiga sér stað í líkamanum. Til dæmis er aukin streita og þreyta eitt þeirra atriða sem hafa áhrif á hárvöxtinn. Líkamlegt og andlegt álag við fæðingu og umönnun nýbura getur stuðlað að hárlosi. Streita truflar hárvöxtinn og getur flýtt fyrir hárlosi

Annað sem getur gerst er skortur á nauðsynlegum næringarefnum. Meðganga og álagið sem henni fylgir á líkamann getur tæmt næringarefnageymsluna! Þetta eru t.d. efni eins og járn, sink og biotín, sem eru öll talin nauðsynleg fyrir heilbrigt hár. Ófullnægjandi inntaka þessara næringarefna eftir fæðingu getur leitt til hármissis.

Ráð til að draga úr hárlosi eftir fæðingu

Jafnvægi í mataræði skiptir miklu máli. Þú þarft líka að passa að fá góðan og hollan mat, ekki bara litla barnið þitt. Passaðu að fæðan sem þú neytir sé rík af vítamínum, steinefnum og próteinum sem nauðsynleg eru til að styðja við heilsu hársins.

Til að vera með vaðið fyrir neðan þig þá getur þú einnig bætt við hárvítamíni í rútínuna þína. Gættu þess þó að það sé sérstaklega fyrir nýbakaðar mæður. Þú getur líka rætt þetta við ljósmóður eða í Mæðraverndinni til þess að fá góðar ráðleggingar varðandi hárlosið.

 

Farðu mjúkum höndum um hárið þitt, það þarf extra athygli á þessum tíma. Vertu varkár þegar þú þværð, þurrkar og burstar hárið til að lágmarka brot, flækjur og tog. Notaðu breiða greiðu og forðastu stífar og fastar hárgreiðslur sem geta togað í hárið. Ekkert “sleek back” neitt!

Nuddaðu hársvörðinn. Nudd fyrir hársvörðinn getur örvað blóðflæði til hársekkjanna og stuðlað að bættum hárvexti. Notaðu náttúrulegar olíur eins og kókosolíu eða jojoba olíu í nuddinu til að næra hársvörðinn eða gott hárserum.

 

Vertu vel vökvuð (við eigum auðvitað við vökvuð af vatni) og hvíld. Já það er eitt að segja það og annað að fylgja því eftir með pínulítið barn sem þarf alla þína athygli og tíma. Þú þarft samt að passa að drekka nóg vatn og fá nægan svefn því það eru lykilatriði bæði fyrir almenna heilsu og heilsu hársins. Næg hvíld og vökvi hjálpar líka við að jafna streitu en eins og kom fram hér að ofan hefur álag og streita mikil áhrif á hárið.

Ráðfærðu þig við lækni eða húðsjúkdómalækni. Ef þú hefur mjög miklar áhyggjur af hárlosi eftir fæðingu skaltu íhuga að ráðfæra þig við húðsjúkdómalækni. Þeir geta veitt persónulega ráðgjöf og mælt með meðferðum, svo sem staðbundnum lausnum eða öðru til að hjálpa við að ná stjórn á hárlosinu á áhrifaríkan hátt. Við viljum hér benda á að Húðlæknastöðin í Smáratorgi býður upp á sérstakar meðferðir fyrir hársvörð.

 

Að lokum skaltu hafa í huga að hárlos eftir meðgöngu er eðlilegt og gengur yfir. Mjög margir upplifa það sama efir meðgöngu og þú ert ekki ein/n. Með því að slaka á, einblína á hollt mataræði, rétta hárumhirðu og leita faglegrar ráðgjafar ef þörf krefur geturðu lágmarkað áhrif hárlossins og stutt við endurvöxt hársins. Mundu að þolinmæði og sjálfsmildi eru lykilatriði á þessu tímabili.

Back to blog