If you know, you know! Þurru hælarnir eru ekki bara vesen á sumrin þegar fleiri sjá þá, ónei! Við erum á tásunum í öllum hot-tímunum í ræktinni, uppi í rúmi með makanum, á hellulagða sundlaugarbakkanum og svo mætti lengi telja. Það er auðvelt að gleyma þessum elskum þegar þeir eru lokaðir í þykkum sokkum og skóm og manni finnst fæturnir kannski ekki vera tímans virði. En hvernig væri að gera smá pláss fyrir þá í “self care” rútínunni? Það er nefnilega þannig að húðin á fótunum okkar á erfiðara á veturna og það er ekki bara næs að vera með mjúka hæla heldur getur góð fótaumhirða komið í veg fyrir sár og dregið úr hættu á sýkingum og táfýlu!
Hér á eftir ætlum við að nefna nokkur góð ráð fyrir fæturna þína.
Gefðu þeim raka
Þú finnur það kannski best í andlitinu en vetrarkuldinn leiðir til þurrar húðar. Við mælum með að nota gott, þykkt fótakrem daglega eða góðan fóta-rakamaska að minnsta kosti einu sinni í viku. Forðastu að setja krem á milli tánna til að koma í veg fyrir sveppasýkingar. Okkur finnst best að hafa fótakremið á náttborðinu og bera það á fæturna fyrir háttinn. Ef við erum að gera “self care Sunday” þá finnst okkur þægilegast að nota rakamaskann. Sparar tíma og fyrirhöfn!
Gefðu þeim loft
Skórnir þínir þurfa að anda nægilega vel því annars ferðu að svitna innan í þeim, sokkarnir verða rakir og þá er hætta á þurrki, táfýlu og sveppasýkingu. Gott er að vera í gæða skóm sem anda og farðu úr skónum við hvert tækifæri sem gefst. Forðastu að vera í blautum skóm eða blautum sokkum í langan tíma.
Gefðu þeim góða sokka
Ef þú ert í skóm sem þú svitnar í er gott að vera í sokkum úr ull eða öðrum raka fráhrindandi efnum til að halda fótunum heitum og þurrum. Þessi efni koma í veg fyrir svitamyndun og blöðrur. Hafðu bakvið eyrað að gerviefni er ekki vinur okkar þegar kemur að svitamyndun.
Gefðu þeim þurrt umhverfi
Ekki flýta þér svo mikið í sturtu að þú gleymir að þurrka fæturna vel áður en þú ferð í sokkana! Ef það var ekki nógu skýrt hjá okkur hér að ofan þá eru bleyta og raki kjöraðstæður fyrir sveppavöxt og táfýlu – sem sagt ekki gott!
Gefðu þeim ást
Skoðaðu fæturna reglulega, segðu hæ! Athugaðu hvort roði, bólgur, skurðir eða blöðrur séu til staðar því þá er hægt að grípa fyrr inn í áður en það kemur sýking eða önnur leiðindi.
Fæturnir okkar eru grunnurinn okkar, þeir bera okkur allan liðlangan daginn og eiga skilið smá ást, þó það sé vetur og þeir séu alltaf í sokkum og skóm. Ef þú þarft meðmæli um góðar fótavörur þá erum við með vörur frá merkinu Baby Foot sem eru mjög áhrifaríkar.